Auka þarf stuðningsþjónustu við börn í leik- og grunnskóla, ekki síst við börn með annað móðurmál en íslensku. Samþætta þarf tómstundir og skólastarf eins og hægt er og stytta þannig vinnudag barna. Við viljum eiga samstarf og samtal við kennara leik- og grunnskóla um hvernig sveitarfélagið geti stutt við skólastarf sem best.
Reykjanesbær skal hefjast handa við að innleiða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna til að tryggja réttindi barna samkvæmt honum, að þeim sé ekki mismunað vegna stöðu þeirra, uppruna og bakgrunns.
Ókeypis skólamáltíð ætti að vera eðlilegur hluti af skólastarfinu og með öllu óeðlilegt að börn, sökum efnahags foreldra, fái ekki máltíð á skóladegi. Eins og staðan er í dag kostar það foreldra um 7000 krónur á mánuði fyrir eitt barn í grunnskóla og annað eins fyrir barn í leikskóla.
Sveitarfélagið Vogar býður upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir og hefur Sveitarfélagið Garður og Sandgerði einnig tekið skref í þessa átt með því að niðurgreiða máltíðir.
Lækka á á greiðslurnar í þrepum þannig að í lok kjörtímabilsins verði hollar og góðar máltíðir í öllum skólum á vegum bæjarins eins og í nágrannasveitafélögum.
Vegna mikillar fjölgunar íbúa á stuttum tíma er mikil þörf á innviðauppbyggingu eins og skóla, leikskóla oþh. Ljóst er að Reykjanesbær getur ekki í ljósi skuldastöðu bæjarins unnið að þessari uppbyggingu á þeim hraða sem þarf og því þarf að koma til stuðningur frá ríkisvaldinu.
Fjölbrautaskóli Suðurnesja verði tryggt sama fjármagn pr. nemanda og aðrir framhaldsskólar fá t.d. á Suðurlandi. Sveitarfélagið þrýsti á um að fjármagnið verði tryggt til þess að sporna gegn brotthvarfi nemenda.