Velferð, barnafjölskyldur og eldra fólk

Réttlátt samfélag krefst velferðarkerfis sem virðir mannréttindi íbúanna, tryggir jafnrétti, mætir þörfum íbúa á þeirra forsendum og styður og hvetur íbúa til heilbrigðs lífs.

Aðgengi allra til þátttöku í samfélaginu skal vera tryggt og einnig að stefnumótun, ákvarðanatökum og þjónustu. Valdefling, samráð og virðing fyrir notendum þjónustunnar skal haft að leiðarljósi.

Nauðsynlegt er að huga að úrræðum fyrir fjölskyldur í vanda bæði með forvörnum og stuðningi, styrkja þarf barnavernd og félagslega ráðgjöf og vinna þarf gegn einmanaleika og kvíða með fjölbreyttum leiðum. Mikilvægt er að hjálpa fólki til sjálfshjálpar.

Sérstaklega þarf að huga að málefnum innflytjenda og flóttafólks og efla stuðning við þann hóp til að aðlögun að íslensku samfélagi gangi vel. Tryggja öllum fötluðum þá þjónustu sem þeir eiga rétt á og gerðir séu NPA samningar þar að lútandi.

Stefnt skal að því að samræma fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og tryggja mannsæmandi viðmið um framfærslu. Vinstri græn vilja koma á tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar á nokkrum vinnustöðum Kópavogsbæjar, þar með talið leikskólum.

 

Barnafjölskyldur:

Hvert samfélag sem hlúir vel að börnum og fjölskyldum þeirra er gott samfélag. Að hlúa að hverju barni er fjárfesting til framtíðar. Samfélög þurfa að vera barnvæn, þar sem öllum börnum eru tryggð þau réttindi sem þau eiga samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að þeim sé ekki mismunað vegna stöðu þeirra, uppruna eða bakgrunns. Taka þarf mið af ákvæðum sáttmálans við alla stefnumótun og ákvarðanatökur. Ekkert barn á að þurfa að alast upp við fátækt, því það skerðir tækifæri og möguleika barna til að eiga gott líf.

 

Málefni eldra fólks

Eldra fólk hefur víðtæka reynslu og þekkingu. Virkja þarf þann kraft sem býr í hópi eldra fólks og vinna gegn aldursfordómum. Sveitarfélögin eiga að koma á forvarnar- og lýðheilsustyrkjum fyrir eldra fólk til að stuðla að bættri heilsu og lífsgæðum þeirra. Þjónusta sveitarfélaga á að vera í samræmi við þarfir og vilja eldra fólks. Stefnt skal að því að forræði málaflokksins verði hjá sveitarfélögum en ekki ríki. Skoða þarf möguleika sveitarfélaga á að samþætta sveigjanlega heimahjúkrun og heimaþjónustu. Þjónusta við eldra fólk í heimabyggð verður að vera tryggð.

  • Þjónusta við eldra fólk í heimabyggð verður að vera tryggð.
  • Samþætta þarf og auka heimaþjónustu og heimahjúkrun
  • Lýðheilsustyrkir fyrir eldra fólk
  • Virkja mannauðinn sem býr í eldra fólki og þátttöku í samfélaginu á forsendum hvers og eins.

Stytting vinnuvikunnar

Stytting vinnuvikunnar er stórt velferðarmál. Vinstri græn vilja hefja styttingu vinnuvikunnar með því hefja tilraunaverkefni á nokkrum vinnustöðum s.s á leikskólum

 

Jafnrétti– og mannréttindi

Tryggja þarf jafnrétti í viðum skilningi, þannig að engum sé mismunað vegna kynferðis, kynhneigðar, kynvitundar, fötlunar, trúarbragða, skoðana, bakgrunns, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis, uppruna, eða stöðu að öðru leiti.

Uppræta þarf margþætta mismunun, kynbundinn launamun, stuðla að auknum jöfnuði kynja þegar kemur að náms- og starfsvali og jafna aðgengi að fjármagni og ákvarðanatöku, t.d. með kynjaðri fjárhagsáætlunargerð og þátttökulýðræði.

Sveitarfélögum ber að sporna gegn kynbundnu ofbeldi, klámvæðingu, mansali og vændi. Vinna skal gegn skaðlegum áhrifum staðalímynda. Tryggja skal jafnréttis- og hinseginfræðslu auk fræðslu um kynbundið ofbeldi í öllu skóla- og uppeldisstarfi ásamt því að veita slíka fræðslu starfsfólki og íbúum sveitarfélagsins.