Menntun, menning og tómstundir

Skólakerfið er hornsteinn jöfnuðar í samfélaginu. Því hafna Vinstri græn markaðsvæðingu skólakerfisins. Tryggja þarf að öll börn fái nám við hæfi og þá þjónustu sem þau eiga rétt á.

Vinstri græn munu forgangsraða í þágu barna, velferðar þeirra og menntunar.

Vinstri græn vilja eiga samstarf og samtal við starfsfólk leik- og grunnskóla um hvernig sveitarfélagið geti stutt við skólastarf sem best og bætt starfsaðstæður og kjör.

Auka þarf forvarnir, snemmtæka íhlutun eftir þörfum og stuðningsþjónustu við börn í leik-og grunnskóla.

Börn eiga rétt á grunnmenntun án endurgjalds og þátttöku í tómstundum, menningu og listum. Þetta þarf að tryggja öllum börnum án tillits til stöðu þeirra, bakgrunns, eða efnahags foreldra þeirra. Grunnskólinn á að vera algjörlega gjaldfrjáls og stefnt skal að því að leikskólinn verði það einnig.

Nauðsynlegt er að auka íslenskukennslu fyrir börn með annað móðurmál en íslensku og jafnframt styrkja móðurmálskennslu þeirra. Þannig er stuðlað að tvítyngi þessara barna. Jafnframt þarf að gefa foreldrum og öðrum fullorðnum kost á íslenskunámi. Fólki af erlendum uppruna sé gert kleift að vera þátttakendur í samfélaginu jafnt og aðrir.

Stefna þarf að aðgengi að leikskóla strax að loknu fæðingarorlofi, samhliða lengingu fæðingarorlofs í a.m.k. 12 mánuði. Gera þarf stórátak í að fjölga starfsfólki leikskóla, ekki síst leikskólakennurum, með því að bæta til muna starfsaðstæður og kjör, svo sem með því að auka undirbúningstíma, styrkja starfsfólk til náms með vinnu og stytta vinnuvikuna. Stefnt skal að því að foreldrar með börn hjá dagforeldrum sitji við sama borð hvað varðar kostnað. Vinstri græn vilja að settar séu reglur um að dagforeldrar vinni a.m.k tveir og tveir saman til að auka öryggi barna og styrkja starfsemina.

Tómstundastarf barna og ungmenna er mikilvægur þáttur í styrkingu sjálfsmyndar þeirra, sem og í forvörnum og til að efla samkennd og sporna við félagslegri einangrun. Nauðsynlegt er að hafa aðgengi að fjölbreyttum tómstundum.

Vinstri græn vilja styðja við uppbyggingu íþrótta– og tómstundastarf fyrir alla aldurshópa í samstarfi við íþrótta- og tómstundafélög. Við leggjum höfuðáherslu á mikilvægi þess að allir geti tekið þátt á eigin forsendum. Öll börn eiga rétt á að stunda tómstundir og vilja Vinstri græn að öll börn fái tækifæri til þess með því að frístundastyrkur nægi a.m.k. fyrir einni tómstundariðju.

Vinstri græn telja mikilvægt að stytta vinnudag barna með því að samþætta íþróttir og tómstundir við dægradvöl í samvinnu við skóla, íþrótta- og tómstundafélög. Þannig kynnast börn fjölbreyttum tómstundum á unga aldri og það eykur möguleika þeirra á að finna ahugasvið sín og styrkleika.

Vinstri græn vilja skapa aðstæður til blómlegs og fjölbreytts lista- og menningarlífs í Kópavogi sem aðgengilegt er fyrir alla. Styðja skal við sköpun og frumkvæði með áherslu á þátttöku barna og unglinga og aðgangi þeirra að kennslu í tónslist, myndlist og öðrum listgreinum.
Tryggt verði að söfn og önnur menningarstafsemi í Kópavogi njóti óskert stuðnings og elfist eftir því sem tilefni er til. Með hinni miklu uppbyggingu í efri byggðum Kópavogs þarf að líta til þess hvernig aðgengi íbúa þar að menningarstarfsemi er háttað. Sérstaklega þarf að líta til bókasafnsþjónustu, e.t.v. í samhengi við aðra menningarstafsemi. Mikilvægt er á þessu sviði sem öðrum að hlustað sé eftir sjónarmiðum starfsfólks og íbúa.

  • Bætum starfsaðstæður og kjör starfsfólks í leikskólum og styttum vinnuvikuna hjá starfsfólki leikskóla.
  • Stefnt skal að leikskólaplássi fyrir öll börn frá 12 mánaða aldri og gjldfrjálsum leikskóla.
  • Styrkjum grunnskólann og styðjum kennara til að sinna starfi sínu með auknum stuðningi, betri vinnuaðstöðu og kjörum.
  • Grunnskólinn skal vera gjaldfrjáls
  • Fjölbreyttar tómstundir og íþróttir samþættar dægradvöl fyrir yngstu börnin, í samstarfi við íþrótta- og tómstundafélög. Frístundastyrkur dugar fyrir kostnaði. Frístundastyrkur dugi fyrir einni tómstund eða íþróttagrein hjá þeim eldri. Styttum vinnutíma barna með því að samþætta íþróttir og aðrar tómstundir við dægradvöl.
  • Nauðsynlegt er að auka íslenskukennslu fyrir börn með annað móðurmál en íslensku og jafnframt styrkja móðurmálskennslu þeirra. Þannig er stuðlað að tvítyngi þessara barna.
  • Öll börn eiga rétt á menntun við hæfi og tryggja þarf nægan faglegan stuðning fyrir öll börn
  • Tryggja aðgengi allra barna að íþrottum og tómstundum.
  • Vinstri græn vilja skapa aðstæður til blómlegs og fjölbreytts lista- og menningarlífs í Kópavogi sem aðgengilegt er fyrir alla.
  • Tryggja þarf að í nýjum hverfum sé aðgengi að menningu og tómstundum.
  • Lengja opnunartíma sundlauga um helgar að vetri til.