Öruggt og heilsusamlegt húsnæði er grundvallar mannréttindi og skal vera tryggt öllum til handa.
Vinstri græn munu setja húsnæðismál á oddinn í komandi kosningum. Við viljum tryggja að í boði sé fjölbreytt húsnæði með fjölbreyttu búsetuformi sem miðast við þarfir hvers og eins. Sveitarfélögunum ber að leggja áherslu á að leysa þetta verkefni án tafar.
Vinstri græn vilja húsnæðiskerfi sem drifið er áfram af félagslegum hugsjónum frekar en hagnaðarsjónarmiðum.
Það er óviðunandi að meira en helmingur tekna heimilisins fari í húsnæði. Það er stefna okkar að miða skuli við að eðlilegur húsnæðiskostnaður heimilanna fari ekki yfir fjórðung ráðstöfunartekna.
Sveitarfélögin verða þegar í stað í samvinnu við ríkið að leita leiða til fólk geti haft fullnægjandi húsnæði á viðunandi kjörum. Gera verður þá kröfu til ríkisins að sveitarfélögum verði gert kleift að bjóða upp á félagslegt húsnæði í samræmi við þörf og lagalega ábyrgð.
Algjörlega er óásættanlegt að fólk þurfi að bíða í meira en þrjú ár eftir félagslegu leiguhúsnæði í Kópavogi, en það er núna meðal biðtíminn hjá Kópavogsbæ. Barnafjölskyldur eru þarna á meðal og þrjú ár er langur tími í lífi barna. Það er forgangsverkefni að bæta úr þessu.
Vinstri græn vilja koma á samstarfi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hvað varðar húsnæðismál, ekki síst félagslegt húsnæði. Öll sveitarfélögin eiga að bera ábyrgð á íbúum svæðisins og ekkert þeirra á að geta skorast undan.
Vinstri græn vilja að íbúðarhúsnæði verði vistvænt og í sátt við umhverfið, hvort sem horft er til nærþjónustu, byggingarefna, orkunotkunar eða annarra þátta.