Stofnum ungbarnaleikskóla til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.
Styrkjum ófaglærða starfsmenn á leikskólum til frekari menntunar á sínu fagsviði til að efla fagmenntun á leikskólum og stuðla þannig að því að uppfylla skilyrði laga um hlutfall fagmenntaðra starfsmanna í leikskólum.
Jafnt á yfir öll börn að ganga. Bærinn á að greiða fyrir börn sem eru á leikskólum í öðrum sveitarfélögum líkt og nú er gert fyrir börn sem eru í grunnskólum eða hjá dagforeldrum utan sveitarfélagsins.
Foreldrar greiði sama gjald fyrir börn hjá dagforeldrum og í leikskóla.
Hækkum laun grunnskóla- og leikskólakennara, bætum starfsumhverfi þeirra og aukum fjárframlög til grunnskóla.
Tryggjum samstarf og samtal bæjarins við kennara leik- og grunnskóla og starfsfólk skólanna um hvernig sveitarfélagið geti stutt við skólastarf sem best.
Grunnskólamenntun og skólamáltíðir á vegum sveitarfélagsins eiga að vera kostaðar af sveitarfélaginu og foreldrum að kostnaðarlausu.
Aukum stuðningsþjónustu við börn í leik- og grunnskóla. Sérstaklega skal styrkja móðurmálskennslu og íslenskukennslu barna sem eru með annað móðurmál en íslensku líkt og fram kemur í aðalnámskrá grunnskóla.
Úttekt verði gerð á fjölda leikskólabarna miðað við fjölda kennara og stærð húsnæðis.
Bætum líðan barna og unglinga með því að færa sérfræðiþjónustu inn í grunnskólana. Ráðum sálfræðinga, hjúkrunarfræðinga og iðjuþjálfa til starfa í alla grunnskóla bæjarins.
Eflum læsi meðal barna og veitum þeim aðstoð við heimanám sem það þurfa innan skólans.
Eflum list- og verkgreinar í grunnskólum Hafnarfjarðar.
Eflum náms- og starfsfræðslu í grunnskólum til að gera nemendum betur kleift að taka ígrundaðar ákvarðanir um námsval. Hafnarfjarðarbær bjóði nemendum grunnskóla upp á markvissar kynningar á iðn- og verkgreinum og störfum sem þeim tengjast.
Stórauka þarf gæði frístundaheimila og færa starfsemi þeirra aftur undir Íþrótta og tómstundarnefnd. Frístundaheimili eiga að vera sjálfstæðar einingar sem bjóða upp á faglegt starf menntaðra starfsmanna.
Tryggja skal aðgengi allra barna að fjölbreyttum tómstundum.
Samþættum skólastarf og tómstundir og styttum þannig vinnudag barna.