Umhverfið okkar

Við viljum sjá Borgarbyggð fremsta í röð íslenskra sveitarfélaga þegar kemur að umhverfismálum.

VG í Borgarbyggð vill:

  • vera leiðandi í umhverfismálum með flokkun sorps notkun vistvænna tækja
  • leita hvetjandi leiða til að auka flokkun sorps í sveitarfélaginu
  • að verkferlar innan skipulagssviðs verði skýrir og mönnun í samræmi við verkefnastöðu

Við viljum að sveitarfélagið sé leiðandi í grænum áherslum í rekstri til dæmis með því að velja tæki, bifreiðar og annað sem nýta endurnýjanlega orkugjafa, minnka pappírsnotkun og auka flokkun sorps. Einnig stefnum við að því að finna út heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá bílaflota á vegum sveitarfélagsins og binda kolefni í skógi sem samsvarar losuninni.

Hvetja skal íbúa til frekari flokkunar sorps, til dæmis með því að lækka sorpgjöld þeirra heimila sem stunda flokkun. Fjölga skal flokkunarstöðvum og bjóða upp á flokkun lífræns úrgangs.

Náttúra Borgarfjarðar og Mýra er einstök og hana þarf að vernda VG leggur til að farið verði í aðgerðir við eyðingu minks þar sem verja þarf hagsmuni eins og varp og klakstöðvar fiska.

Við viljum fjölga göngu- og reiðhjólastígum, gera skal framkvæmdaáætlun fyrir allt sveitarfélagið í samstarfi við Vegagerðina og landeigendur.

Skipulagsmál

Við viljum að sveitarfélagið okkar sé vel skipulagt og að þeir ferlar sem byggingaraðilar þurfa að fara eftir séu skýrir og skilvirkir. Mikilvægt er að mönnun skipulagssviðs sveitarfélagsins sé í samræmi við vinnuálag svo ekki safnist upp óeðlilega mörg mál sem tefur fyrir afgreiðslu þeirra.

Stefnt skal að því að búa til umhverfi til að fá fyrirtæki til að byggja hagkvæmt og vandað íbúðarhúsnæði en gera skal ráð fyrir aðgengi að hleðslustöðvum í nýjum hverfum og aðgengi að bílahleðslum sé við stofnanir sveitarfélagsins.

Á næsta kjörtímabili fer af stað af fullum krafti gerð nýs aðalskipulags. Við gerð skipulags skal ávallt leitast við að taka tillit til sem flestra sjónarmiða og hagsmuna þannig að það nái sem best að þjóna tilgangi sínum.

Leita skal eftir samvinnu við Vegagerð og ferðaþjónustuaðila til að vinna að því að fjölga útskotum á þjóðvegum m.t.t. myndataka og útsýnisstaða. VG vill að Brákarey verði tómstunda og safnaeyja, þar sem sprotafyrirtækjum, áhugamannafélögum og litlum fyrirtækjum yrði gert kleift að starfa.