Íþróttir & Tómstundir

Íþróttir og tómstundir eiga að vera fyrir alla, aðgengi að þeim þarf því að vera gott og fjölbreytt úrval í boði. VG í Borgarbyggð leggur áherslu á forvarnargildið sem öflugt íþrótta- og tómstundastarf hefur í för með sér og því mikilvægt að styðja vel við þetta starf hjá öllum aldurshópum.

Lengja þarf opnunartíma íþróttahúsanna til að auka aðgengi að þeim og gæta þess að aðstöðu og tækjum sé vel við haldið. Einnig þarf að auka möguleika á útivist og hreyfingu með átaki í gerð göngu og reiðhjólastíga. Mikilvægt er að á þeim leiðum verði gert ráð fyrir bekkjum og einföldum útiæfingatækjum.

Huga þarf að bættri aðstöðu til íþróttaiðkunnar sér í lagi yfir vetrartímann, til að geta komið til móts við sem flesta. VG vill gera þarfagreiningu í samstarfi við UMSB svo hægt sé að nýta íþróttamannvirki sveitarfélagsins til fulls en einnig að móta skýra stefnu til framtíðar. Mögulegar lausnir á vanda íþróttafélaga til æfinga væri að nýta betur þau mannvirki sem nú þegar eru til staðar en einnig þarf að skoða þörf á stækkun þeirra.

VG vill leggja áherslu á það að vinnudagur yngstu nemenda grunnskólans sé sem stystur en það viljum við meðal annars gera með því að samnýta starfsfólk íþrótta- og tómstundaskólans inn í starf grunnskólanna. Þannig gætu yngstu nemendurnir sem stunda t.d. íþróttaæfingar stundað þær í frístundatímanum, að loknum skóladegi en áður en skólarútur aka heim. Vænta má að þessi aðgerð auki þátttöku og geri nemendum í dreifbýlinu auðveldara fyrir að stunda íþróttir og fá akstur heim að skóla loknum. Að sama skapi gætu þessar aðgerðir, með góðri samvinnu Grunnskóla Borgarness og UMSB, skapað svigrúm í íþróttahúsinu í Borgarnesi fyrir aukna starfsemi þar. Til bæta enn frekar nýtingu íþróttamannvirkja Borgarbyggðar er mjög nauðsynlegt að endurskoða ferðir tómstundarútunnar til að hún nýtist fleiri hópum og víðar um samfélagið. Einnig er mikilvægt að börn sem þurfa eftir atvikum að bíða eftir að æfingar hefjist hafi aðstöðu til að matast og bíða annað hvort í eða nálægt íþróttamannvirkjunum.

Mikilvægt er að styðja við og efla enn frekar fjölbreytt tómstunda- félags og íþróttastarf í Borgarbyggð. Gera þarf átak í þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu tómstundastarfi enda hefur hún ótvírætt forvarnargildi. Við viljum styðja við félagsstarf þeirra með öflugra tómstundastarfi, bættu aðgengi allra ungmenna t.d. með því að bjóða oftar upp á akstur, en einnig með því að bjóða upp á félagsstarf í starfsstöðvum grunnskólanna.