Fræðslumál

Frá sameiningu sveitarfélaganna hefur stefna VG í Borgarbyggð verið sú að starfsstöðvar grunnskólanna skuli halda sér og ennfremur haldi samningur varðandi Laugargerði. Ekki verður breyting þar á nema í sátt við, og/eða að frumkvæði notenda þjónustunnar.

Samfélag án skóla er samfélag án framtíðar og því er mikilvægt að við hlúum vel að þeim grunnstoðum sem eru leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskóli. Nýunnin skólastefna Borgarbyggðar á að vera leiðarljós sveitarfélagsins í skólamálum til framtíðar. Frá hausti 2017 hefur öllum nemendum verið boðið upp á námsgögn án endurgjalds en við viljum taka næsta skref og bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins.

Aðstaða

Oft er talað um að þriðji kennarinn sé námsumhverfið. Því er mikilvægt að umhverfið og kennsluaðstaða sé eins og best verður á kosið í öllum skólastofnunum sveitarfélagsins og sé í takt við breytta kennsluhætti. Því viljum við bæta aðstöðu til list- og verkgreinakennslu, stuðla að öflugri útikennslu og auka með því fjölbreytni í námi. Mikilvægt er að innan skólastofnana sé nægilegt rými fyrir hvern nemanda til að hann þroskist og njóti sín og nettengingar og leiðir til gagnaflutnings verða að vera viðunandi til kennslu í nútíma samfélagi. Í þeirri vinnu sem framundan er við endurskipulagningu skólalóða, er kjörið tækifæri til að gera skólalóðirnar sem náttúrulegastar til að styðja skapandi hugsun og leik nemenda. Auðvelda þarf skólum að fara í vettvangsferðir, t.d. til að heimsækja söfn og menningarstaði sveitarfélagsins með auknu fjármagni til ferðalaga.

Nám & Kennsla

Samkvæmt lögum ber sveitarfélaginu að bjóða upp á skóla án aðgreiningar. Því er mikilvægt að skólastofnanir séu mannaðar í samræmi við það og aðstaða til staðar til að breyta kennsluháttum. Leggja þarf áherslu á fagmenntun þeirra sem inni í skólastofnunum starfa hvort sem um ræðir sérfræðinga, kennara, stuðningsfulltrúa eða tómstundafræðinga. Leggja þarf áherslu á áframhaldandi gott samstarf við atvinnulíf og á milli skólastiga í héraðinu.

Sérfræðiþjónusta

Vinna greiningarteymis Borgarbyggðar hefur skilað góðum árangri, flýtt ferli mála og því ber að halda áfram en í teyminu situr fagfólk innan sveitarfélagsins sem vinnur að úrvinnslu og forgangsröðun sérfræðiþjónustunnar. Við viljum að sérfræðiþjónusta sveitarfélagsins sé enn öflugri svo hægt sé að grípa fyrr inn í mál sem geta valdið miklum erfiðleikum fyrir nemendur síðar. Þannig ætti kostnaður að minnka til lengri tíma litið þegar hægt er að grípa inn í mál fyrr en nú er gert.