Velferðarmál

Aðgengi allra hópa samfélagsins að lífsins gæðum á að vera tryggt, óháð aldri, heilsu og þjóðerni. Við viljum barnvænt samfélag sem hlúir að börnum og fjölskyldum þeirra. Vinstri-græn leggja áherslu á að öllum börnum séu tryggð þau réttindi sem þeim ber samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Eitt af því sem skiptir sköpum fyrir öryggi barna og fjölskyldur þeirra er að fólk eigi val um búsetu og búsetukostir séu bæði fjölbreyttir og heilsusamlegir. Fjölga þarf húsnæðiskostum sem eru í boði á félagslegum forsendum.

Málefni fatlaðra eru á forræði sveitarfélaga og tryggja þarf fötluðum lífsgæði sem hæfa þörfum hvers og eins. Stefnt skal að því að samræma fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og tryggja mannsæmandi viðmið um framfærslu. Mikilvægt er að hjálpa fólki til sjálfshjálpar og skoða þarf möguleika á að samþætta sveigjanleika í heimahjúkrun og heimaþjónustu.

Mosfellsbær var fyrsta sveitarfélagið sem var skilgreint sem heilsueflandi samfélag. Góð heilsa er gulls ígildi og það er mikill samfélagslegur ávinningur af því að styðja og hvetja íbúa til heilbrigðs lífernis.

Á kjörtímabilinu höfum við:

  • Fjölgað félagslegum íbúðum í bæjarfélaginu.
  • Veitt fjármagni til að styrkja samtök og félög sem vinna að velferðarmálum.
  • Hækkað fjárhagsaðstoð til einstaklinga og fjölskyldna sem standa höllum fæti í samfélaginu.
  • Staðið vörð um rekstur hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ.

Vinstri græn vilja:

  • Að gerð verði áætlun um að stytta biðlista eftir félagslegum íbúðum.
  • Skapa grundvöll fyrir auknu framboði á leiguhúsnæði í samvinnu við byggingarfélög þar sem arðsemissjónarmið ræður ekki för.
  • Stuðla að öflugu forvarnarstarfi í samvinnu við skólasamfélagið, heilsugæslu, lögreglu og foreldra.
  • Styðja við lýðheilsu og heilsueflandi samfélag í Mosfellsbæ.
  • Stuðla að bestu útfærslunni á heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu og efla heimaþjónustuna.