Umhverfis- og skipulagsmál

Allt frá stofnun Vinstri hreyfingarinnar–græns framboðs árið 1999 hafa umhverfismál verið eitt af grunnstefjum flokksins sem hefur verið í fararbroddi í umhverfismálum á Íslandi. Umhverfismál eru málefni 21. aldarinnar og snerta heimsbyggð og heimabyggð í senn.

 

Loftslagsmál eru gífurlega mikilvæg um víða veröld. Ísland stefnir að kolefnishlutleysi fyrir árið 2040, en fylgjast þarf betur með loftgæðum með reglubundnum mælingum. Mengun af ýmsum toga er víða veruleg ógn. Draga þarf úr notkun einnota hluta, ekki síst úr plasti, stórauka þarf sorpflokkun og endurvinnslu fyrir heimili og fyrirtæki og gera þá þjónustu almenna en ekki valkvæða.

 

Umhverfis- og skipulagsmál eru nátengd og skipulag þarf ævinlega að taka mið af umhverfissjónarmiðum. Við uppbyggingu nýrra íbúasvæða þarf að gera ráð fyrir umhverfisvænum lífstíl með aðstöðu til sorpflokkunar og hleðslustöðvum fyrir rafbíla. Vistvænar almenningssamgöngur eru framtíðin og hjóla, reið- og göngustígar þurfa að vera hluti af samgöngukerfinu.

 

Vinna þarf að þéttingu byggðar og tryggja jafnframt verndun náttúruminja og aðgengi að náttúrunni og grænum svæðum. Náttúran og sagan í Mosfellsbæ skapa ákveðna ásýnd og tækifæri sem hlúa þarf að með myndarlegum hætti.

Á kjörtímabilinu höfum við:

  • Gegnt formennsku í umhverfisnefnd Mosfellsbæjar og varaformennsku í skipulagsnefnd.
  • Stuðlað að frekari flokkun á heimilissorpi.
  • Skipulagt vinnu við nýja umhverfisstefnu fyrir Mosfellsbæ. Haldinn var fjölsóttur íbúafundur um stefnuna 22. mars síðastliðinn  þar sem bæjarbúar tóku beinan þátt í mótun hennar.
  • Tryggt fjármagn til að stemma stigu við útbreiðslu ágengra plöntutegunda, einkum lúpínu og kerfils.
  • Haldið opinn íbúafund um umhverfismál á hverju ári.
  • Stutt aukna þjónustu Strætó í Helgafellshverfi og Leirvogstungu.
  • Sett á dagskrá hugmyndina um friðlýsingu Gamla Þingvallavegarins sem er hestvagnavegur á Mosfellsheiði frá 19. öld og stórkostlegar menningarminjar.
  • Við viljum halda áfram þeirri vinnu í samvinnu við sveitarfélögin austan heiðarinnar.

Vinstri græn vilja:

  • Að Mosfellsbær haldi sínu yfirbragði, byggð verði lágreist og umvafin leiksvæðum og ósnortinni náttúru eftir því sem kostur er.
  • Ævinlega verði tekið tillit til umhverfisþátta við skipulag og mannvirkjagerð.
  • Ljúka vinnunni við nýja umhverfisstefnu í Mosfellsbæ þar sem tekið er mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
  • Að framboð á byggingarlóðum verði í samræmi við eftirspurn.
  • Að unnið verði markvisst að náttúruvernd í sveitarfélaginu.
  • Að hleðslustöðvum fyrir bíla verði fjölgað og þær efldar.
  • Þétta net hjóla-, reið- og göngustíga í bænum og vistvænar samgöngur (hjólreiðar og almenningsvagnar) verði valkostur fyrir bæjarbúa í daglegu lífi.
  • Að hafist verði handa sem fyrst með vegabætur á Þingvallavegi þar sem hann liggur í gegnum Mosfellsdal.
  • Vinna áfram að uppbyggingu Ævintýragarðsins.
  • Vinna markvisst að hreinsun umhverfisins, stefna að aukinni flokkun á heimilissorpi og endurskoða staðsetningu grenndargáma. Ennfremur að draga úr plastnotkun og vægi umbúðasamfélagsins.
  • Skilgreint verði betur hvar megi aka á vegslóðum í landi Mosfellsbæjar, einkum á Mosfellsheiði. Einnig viljum við vinna gegn utanvegaakstri í landi bæjarins.