Menningarmál

Sveitarfélögum ber að skapa aðstæður fyrir blómlegt og fjölbreytt lista- og

menningarlíf sem höfðar til sem flestra. Það glæðir byggðirnar heilbrigðu mannlífi og gerir þær eftirsóknarverðar til búsetu.

Menningarlíf í Mosfellsbæ er gróskumikið og nauðsynleg kjölfesta sem auðgar samfélagið okkar. Vinstri-græn leggja áherslu á að sveitarfélagið styðji myndarlega við bakið á þessari fjölbreyttu starfsemi í samvinnu við félagasamtök, einstaklinga, fyrirtæki og skólasamfélagið. Í því samhengi má nefna ýmsa árvissa viðburði, til dæmis menningarvor á Bókasafni Mosfellsbæjar, þrettándagleði og bæjarhátíðina Í túninu heima. Í Mosfellsbæ býr og starfar fjöldi frábærra listamanna sem hefur látið mikið að sér kveða, bæði innanlands og utan-.

Vinstri-græn í Mosfellsbæ líta á félagsheimilið Hlégarð sem helsta menningarhús bæjarins og vilja veg þess sem mestan og bestan. Um þessar mundir stendur rekstur hússins á tímamótum og ljóst er að eftir kosningar þarf að taka ákvarðanir um framtíð Hlégarðs, bæði hvað varðar rekstrarform, bygginguna og starfsemina. VG vill taka virkan þátt í þeirri umræðu.

Á kjörtímabilinu höfum við:

  • Ýmist gegnt formennsku eða varaformennsku í menningarmálanefnd Mosfellsbæjar.
  • Stutt dyggilega við menningarstarfsemi og listsköpun í bæjarfélaginu.
  • Aukið framlag í lista- og menningarsjóð bæjarins en sjóðurinn styrkir menningartengd verkefni og annast kaup á listaverkum fyrir Mosfellsbæ.
  • Látið endurhlaða setstallana í brekkunni í Álafosskvos.
  • Staðið vörð um starfsemi Héraðsskjalasafns Mosfellsbæjar.

Vinstri græn vilja:

  • Styðja dyggilega við fjölskrúðugt menningarlíf í Mosfellsbæ.
  • Að unnið verði að stefnumótun fyrir Hlégarð og að eitt höfuðmarkmið þeirrar vinnu verði að nýta húsið betur í þágu bæjarbúa.
  • Að stórt leiksvið verði byggt neðan við setstallana í Álafosskvos sem mun bæta mjög nýtingarmöguleika svæðisins.
  • Að gert verði ráð fyrir útilistaverkum við hönnun og skipulagningu á mannvirkjum bæjarins.
  • Halda á lofti hugmyndinni um sýningu/safn þar sem Íslandssagan yrði sögð með sögu Mosfellsbæjar sem útgangspunkt.
  • Tryggja framtíð Héraðsskjalasafns Mosfellsbæjar.
  • Að hernámsárunum í Mosfellsbæ verði gerð betri skil og stríðsminjar varðveittar.