Umhverfis- og náttúruvernd

Vinstri græn eru í fararbroddi í umhverfismálum. Kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 með gróðurrækt, endurheimt votlendis, vistvænum innkaupum, minni umferð og notkun rafbíla.

Stóraukum flokkun á rusli, aukum endurvinnslu og drögum þannig úr almennri sóun. Hvetjum fyrirtæki og stofnanir til að gera slíkt hið sama. Bæta þarf almenningssamgöngur þannig að íbúar hafi raunverulegt val um annað en að aka á einkabíl. Tekið verði tillit til fjölbreyttra ferðamáta í allri skipulagsvinnu bæjarins.

Öll samgöngutæki í eigu sveitarfélagsins eiga að vera knúin umhverfisvænum orkugjöfum. Sveitafélagið geri samgöngusamninga við starfsfólk sitt sem felur í sér hvatningu til notkunar á vistvænum samgöngumáta.

Draga þarf úr svifriksmengun í bænum með því að takmarka þungaflutninga í gegnum miðbæ Hafnarfjarðar. Stórauka þarf þvott og sópun á götum og gangstéttum bæjarins.

Unnið verði markvisst að plastlausum Hafnarfirði með því að draga úr notkun einnota hluta og stórauka sorpflokkun og endurvinnslu fyrir heimili og fyrirtæki. Gera þarf þá þjónustu almenna en ekki valkvæða.

Fjölga þarf móttökustöðvum í nærumhverfi íbúa og auka flokkum úrgangs sem tekið er á móti til endurvinnslu.

Auka þarf fræðslu um umhverfismál og stuðning við íbúa til að temja sér umhverfisvænan lífsstíl.

Náttúran á að njóta vafans við alla ákvarðanatöku, þannig að gæðum hennar verði skilað áfram til komandi kynslóða. Náttúruauðlindir eru sameign þjóðarinnar og allir íbúar eiga rétt á heilnæmu umhverfi. Tryggjum að umhverfis- og auðlindastefnu bæjarins verið fylgt eftir með tímasettri og fjármagnaðri aðgerðaáætlun.

Standa ber vörð um neysluvatn og loftgæði án málamiðlana. Aukum aðgengi að hleðslustöðvum. Eflum almenningssamgöngur og fjölgum göngu-, reið- og hjólastígum.

Umgengni og nýting náttúruauðlinda skal einungis vera á hendi fyrirtækja í almenningseign.