Rekstur og þjónusta Hafnarfjarðarbæjar

Sveitarfélagið okkar er samfélag en ekki fyrirtæki. Allir eiga að geta notið jafnra tækifæra til athafna og þátttöku í þeirri mikilvægu þjónustu sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum. Hafnarfjarðarbær á að axla ábyrgð á grunnþjónustunni en ekki fela einkaaðilum að annast hana.

Grundvöllur að góðum rekstri samfélags er ábyrg efnahagsstjórn og jafnvægi í fjármálum. Leggja skal áherslu á að forgangsraðað sé fjármagni í þágu lögbundinnar þjónustu sveitarfélagsins. Tímabært er að bærinn sinni betur viðhaldi á eignum sínum auk þess að greiða niður skuldir.

Höfum samráð við bæjarbúa frá fyrstu skrefum fjárhagsáætlana og stefnumótunar með þátttökufjárhagsáætlunargerð. Höfum virkt samráð við íbúa s.s. ungmennaráð, öldungaráð, ráðgjafaráð, fjölmenningarráð, grasrótarsamtök og ýmsa aðra hagsmunahópa.

Innleiðum kynjaða fjárhagsáætlunargerð til þess að gæta jafnréttis við gerð fjárhagsáætlana.

Innleiðum græna starfs- og fjárhagsáætlanagerð þ.e. að umhverfið sé ávallt látið njóta vafans.

Tryggjum opna og gagnsæja stjórnsýslu með skýrum verkferlum og aðgengi almennings að gögnum. Stjórnsýsla bæjarins starfi eftir siðareglum og alþjóðlegum gæðastöðlum.

Stofnum embætti umboðsmanns Hafnfirðinga sem hefur það hlutverk að leiðbeina íbúum í samskiptum við Hafnarfjarðarbæ, fá ráðgjöf vegna mála sem upp kunna að koma og aðstoð við að leita réttar síns.