Börn og barnafjölskyldur

Setjum börn í forgang og fjárfestum í framtíð þeirra. Hafnarfjörður á að vera barnvænt samfélag þar sem öllum börnum eru tryggð þau réttindi sem þau eiga samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Innleiðum Barnasáttmálann þannig að tekið verði mið af ákvæðum hans við alla stefnumótun og ákvarðanatöku bæjarins.

Ekkert barn á að þurfa að alast upp við fátækt, því það skerðir tækifæri og möguleika þeirra til að eiga gott líf. Samkvæmt skýrslu UNICEF á Íslandi búa um 600 börn við fátækt hér á landi.

Skólamáltíðir í grunnskólum verði niðurgreiddar að fullu af Hafnarfjarðabæ.

Tryggjum öllum börnum aðgengi að fjölbreyttum tómstundum.

Frítt í strætó fyrir börn að 18 ára aldri á kostnað bæjarins.

Allir verðandi foreldrar fái gjafakassa frá Hafnarfjarðabæ með gjöfum fyrir barnið s.s. samfellur, teppi, bleyjur ofl.

Áhersla skal lögð á atvinnumál ungs fólks, fjölbreytt sumarstörf og virkniverkefni í samræmi við aldur og þroska.

Bætum líðan barna og unglinga með því að færa sérfræðiþjónustu inn í grunnskólana. Ráðum sálfræðinga, hjúkrunarfræðinga og iðjuþjálfa til starfa í alla grunnskóla bæjarins.

Stefnt skal að sjö tíma vinnudegi og að sveitarfélagið taki frumkvæði og fyrstu skrefin í þá átt, eins og gert hefur verið í Reykjavík með góðum árangri.

Í Hafnarfirði þurfa búsetukostir að vera fjölbreyttari, þannig að fólk eigi raunverulegt val um búsetu. Styðja þarf við uppbyggingu leiguhúsnæðis.

Hafnarfjarðarbær skal hafa aðkomu að stofnun húsnæðisleigufélags sem rekið er án hagnaðarsjónarmiða og íbúðir leigðar á sanngjörnu verði.

Hefjum viðræður við ríkið um úrræði þannig efnaminna og ungu fólki verði gert kleift að kaupa fasteign.

Stóraukum úthlutun lóða fyrir lítil sérbýlishús auk lóða fyrir smærri fjölbýlishús. Þannig verða til litlar íbúðir, lítil raðhús og lítil einbýlishús sem auðvelda eldra fólki að minnka við sig og ungu fólki að hefja búskap.

Bregðast þarf strax við brýnni þörf og stytta langa biðlista eftir félagslegu húsnæði með fjölgun íbúða í eigu sveitarfélagsins.