Velferðarmál

VG í Borgarbyggð leggur áherslu á markvissa og öfluga félagsþjónustu í sveitarfélaginu. Markmið félagsþjónustu er að tryggja félagslegt öryggi og að íbúar hafi vísan stuðning vegna framfærslu þegar önnur úrræði eru ekki fyrir hendi.

Það að vera virkur þátttakandi í samfélaginu eykur lífsgæði og þrótt, því viljum við veita eldri borgurum, öryrkjum og þiggjendum framfærslustyrks gjaldfrjálst árskort í sund og þreksal, sem og á söfn og sýningar á vegum Borgarbyggðar.

Nauðsynlegt er að berjast fyrir bættri læknisþjónustu í héraðinu. Halda skal áfram að gera kröfu til heilsugæslunnar um að heimahjúkrun sé veitt alla daga.

VG telur að leggja beri nýunna stefnu Borgarbyggðar í málefnum eldri borgara til grundvallar úrbóta í málaflokknum. Þar er megináherslan lögð á virkni eldri borgara og að sveitarfélagið leggi sitt af mörkum svo hægt sé að eldast með reisn í Borgarbyggð.

VG mun beita sér fyrir auknu framboði á fjölbreyttum búsetuúrræðum fyrir eldri borgara. Mikilvægt er að fullnýta möguleika Brákarhlíðar, hvort heldur sem er fyrir hvíldarinnlagnir, dvalarrými eða hjúkrunarrými og þrýsta enn frekar á samþykkt fleiri rýma frá hendi ríkisins.

VG vill skoða möguleika á íbúakjörnum fyrir aldraða á minni þéttbýlisstöðum sveitarfélagsins þar sem áhersla er lögð á sveitasamfélagið. Skapa þarf vettvang þar sem samfélagið fær notið þekkingar og reynslu þeirra sem komnir eru á efri ár.