Fjármál sveitarfélagsins

VG í Borgarbyggð leggur áherslu á ábyrga fjármálastjórnun þar sem yfirsýn og gott aðhald haldast í hendur.

Mikil uppsveifla hefur einkennt Ísland síðustu misseri sem skilar sér í auknum tekjum sveitafélagsins bæði í formi skatttekna en ekki síður auknu fjármagni í gegnum jöfnunarsjóð. Ábyrg fjármálastjórn er lykillinn að hagsæld og uppbyggingu í sveitarfélaginu. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í ferðaþjónustunni á síðustu árum en henni þarf að fylgja eftir með fjölbreyttum kosti á húsnæði fyrir fólk sem vill starfa og setjast að í sveitafélaginu. Fylgt verði eftir lögum um gistingu í heimahúsum og skilgreind íbúabyggð sett þar undir, því verði ekki heimilt að selja út gistinætur í skilgreindri íbúabyggð í meira en 90 daga á ári nema með þar til gerðum rekstrarleyfum. Með þessu er ætlunin að sporna við því að íbúðarhúsnæði og leiguhúsnæði hverfi af markaði til ferðamanna og að íbúðarkostum til fastrar búsetu fækki um of.

Gæði þjónustu ræður miklu um hvar einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir setjast að þessvegna skiptir öllu máli að innviðir samfélagsins séu í góðu lagi.  Sterkir leik- og grunnskólar, öflugar samgönguleiðir, rafmagns- og nettengingar í lagi og heilbrigðisþjónusta sem hægt er að vera stoltur af.

Áfram skal unnið að því að ná hagstæðari samningum við Orkuveitu Reykjavíkur um rekstur vatns-, hita- og fráveitu. Mikilvægt er að Borgarbyggð haldi í eignahlut sinn í Orkuveitu Reykjavíkur og geti þannig komið beint að ákvarðanatöku og sinnt lagalegri skyldu sem snýr að þessum þáttum.