Almenn stjórnsýsla

Við leggjum áherslu á jafnrétti og hefur VG skýra stefnu í þeim málum. Ávallt þarf að fylgjast með að jafnrétti sé í raun innan stjórnsýlunnar og á stofnunum sem heyra undir sveitafélagið og lagfæra það sem miður fer.

VG í Borgarbyggð vill:

  • skýrari verklagsferla hvað snýr að stjórnsýslu sveitarfélagsins
  • bætt upplýsingaflæði innan sveitarfélags með ítarlegri fundargerðum og betra samráði við íbúa
  • skipta upp nefndum sem hafa of víðfeðmt verksvið
  • sýna ábyrga fjármálastjórn um leið og sveitarfélagið verður byggt upp til framtíðar
  • hvetja fyrirtæki til að flytja rekstur í Borgarbyggð og fjölga um leið íbúum
  • efla aðkomu ungs fólks að ákvarðanatöku sem snýst um þeirra málefni

VG í Borgarbyggð vill að stjórnsýsla Borgarbyggðar einkennist af skilvirkni og opnu upplýsingaflæði. Nefndarstarf þarf að einfalda og vill VG skipta upp umhverfis-, skipulags og landbúnaðarnefnd í tvær nefndir. Umhverfis- og landbúnaðarnefnd annars vegar og skipulagsnefnd hinsvegar, til að einfalda og hraða afgreiðslu mála. Við viljum efla aðkomu ungs fólks að ákvarðanatöku með því að stórefla ungmennaráð og ætti það rétt á áheyrnafulltrúa í fræðslunefnd sem og nefndum sem taka ákvarðanir um málefni ungs fólks. Áfram verði unnið með eldriborgararáði líkt og gert hefur verið og unnið að þeim hagsmunamálum sem snúa að þeim.

Við viljum að stjórnsýsla sveitarfélagsins og bókhald sé eins opið og kostur er. Skýrar og ítarlegar fundargerðir eru lykilatriði í því að íbúar geti auðveldlega nálgast upplýsingar og fylgst með framgangi mála. Mikilvægt er að tengja fyrri ákvarðanir eða umfjallanir mála saman með tenglum á milli fundargerða. Að sama skapi þarf að auka samráð við íbúa sveitafélagsins og skýra með hvaða hætti það á að fara fram. Nýlega voru lögð fram drög að stefnu Borgarbyggðar um upplýsingamál og íbúasamráð. Fyrir liggur að kostnaðarmeta þá þætti sem fram koma í skýrslunni og þarf komandi sveitastjórn að taka afstöðu til hennar

Það er ljóst að ný sveitastjórn Borgarbyggðar sem tekur við að afloknum kosningum verður að mestu skipuð nýjum fulltrúum. VG telur því mikilvægt að gera áframhaldandi samning við núverandi sveitastjóra að kosningum loknum. Við viljum standa vörð um starfsemi ráðhússins og skoða hvort þörf sé á eflingu einstakra sviða til að tryggja öfluga og góða stjórnsýsluhætti.

VG vill að markaðs og kynningarmál verði kortlögð með það í huga að finna leiðir til að bæta ímynd sveitarfélagsins. Slíkt starf þarf að fara fram bæði gagnvart núverandi íbúum og þeim sem vilja flytja hingað bæði með fjölskyldur sínar eða fyrirtæki.